Gyðjan er 100 km fjallahlaup með 3580 m hækkun. Hlaupið hefst við Goðafoss og þaðan er hlaupið yfir Belgsárfjall og Vaðlaheiði til Akureyrar, upp á bæjarfjallið Súlur, inn á Glerárdal og að lokum niður í miðbæ Akureyrar.
Rásmarkið er á fallegum útsýnisstað við Goðafoss í um 110 m hæð yfir sjávarmáli. Hlaupið er vestur yfir Skjálfandafljót á göngubrú og meðfram Þjóðvegi 1 yfir brú á Hrúteyjarkvísl. Þá er beygt til suðurs inn á Bárðardalsveg vestari og hlaupinn stígur meðfram honum, hér erum við í Bárðardalshrauni sem rann fyrir 9000 árum. Beygt er til vesturs inn á heimreið að Öxará og þar byrjar fyrsta brekkan. Hlaupið er um 4 km upp eftir melum og móum að vaði á Öxará í 430 m hæð. Vaðið er auðvelt, dýpið er aðeins á miðjan kálfa.
Nú er farið til vesturs og um 7,5 km leið að vörðu á hábungu Belgsárfjalls í 830 m hæð. Þessi leið er grýtt á köflum og þarf að fara varlega. Frá vörðunni er farið til suðvesturs fram á fjallsbrún (munið að njóta útsýnisins yfir Fnjóskadalinn!) og eftir það tekur við 650 m lækkun niður eftir fjallshryggnum að eyðibýlinu Belgsá, þar sem komnir eru 21 km. Þar er fyrsta drykkjarstöðin í hlaupinu.
Frá Belgsá er hlaupið til norðurs eftir fáförnum malarvegi að brú við Illugastaði. EKKI er hlaupið yfir brúna heldur haldið áfram austan við ána og hlaupið norður í gegnum Þórðarstaðaskóg, sumarhúsahverfið í Lundsskógi og á skógarstígum í gegnum Vaglaskóg að drykkjarstöð eftir 37 km. Þess má geta að Vaglaskógur er annar af stærstu náttúrulegu birkiskógum landsins ásamt Hallormsstaðaskógi.
Úr Vaglaskógi er hlaupið vestur yfir gömlu bogabrúna á Fnjóská sem var byggð 1908. Hún er 55 metra löng og var um langt skeið lengsta steinbogabrú á Norðurlöndum. Hún er auk þess af mörgum talin vera á meðal fegurstu mannvirkja sem byggð voru á Íslandi á 20. öld. Frá brúnni er hlaupið upp á þjóðveg og honum fylgt til suðurs, tæplega 3 km leið að Systragili. Gætið þess að hlaupa vinstra megin á móti bílaumferðinni og farið varlega.
Við Systragil er beygt til hægri upp á Þingmannaleið sem var aðalsamgönguleiðin á milli Þingeyjarsýslna og Eyjafjarðar í gegnum aldirnar. Stefan er í suðvestur, og haldið áleiðis á fjall númer tvö í hlaupinu. Hér er 580 m hækkun á 7 km kafla upp að hæsta punkti leiðarinnar á Vaðlaheiði í um 680 m hæð. Uppi á heiðinni er merkileg grjóthleðsla frá árinu 1871. Þá fer leiðin að liggja niður í móti og er 660 m lækkun á ágætum stíg um mela og móa að bílvegi norðan við Eyrarland.
Hlaupið er suður með veginum um 500 metra og svo áfram eftir stíg meðfram þjóðveginum um 1,5 km. Þar er farið vestur yfir Eyjafjarðarbraut austari (varlega!) og hlaupið eftir malarvegi yfir gömlu brýrnar á Eyjafjarðará. En þessi leið var áður þjóðvegurinn til Akureyrar austan frá. Óshólmarnir eru verndarsvæði og þar er mikið fuglalíf. Hlaupið er yfir Eyjafjarðarbraut vestari á gangbraut (varlega!) og upp í Kjarnaskóg þar sem er drykkjarstöð og dropbag. Á þessari drykkjarstöð er leyfilegt að vera með aðstoðarmann. Hér eru búnir 58 km.
Úr Kjarnaskógi er hlaupið upp á hamrana fyrir ofan skóginn en þaðan er gott útsýni yfir bæinn og fjörðinn. Eftir um 300 m hækkun á góðum stíg er farið framhjá skátaskálanum Gamla og svo áfram yfir klappirnar og fram hjá skátaskála sem heitir Fálkafell. Þaðan er hlaupið niður að Súlubílastæði þar sem er drykkjarstöð og búnir 68 km af hlaupinu. Eftir hana tekur við um 900 m hækkunin upp á bæjarfjallið Súlur.
Af Súlutindi er haldið áfram yfir á Syðri Súlur og svo suður eftir fjallgarðinum, farið framhjá Krumma og að Litla Krumma en þá er beygt niður í Lambárdal, yfir Lambárjökul og upp á Lambáröxl. Þaðan niður í Glerárdal að gönguskálanum Lamba þar sem komnir eru 82 km. Þessi hluti leiðarinnar er grýttur og brattur á köflum og mælum við með því að hér sé varlega farið. Hjá Lamba er drykkjarstöð sem björgunarsveitin Súlur sér um.
Úr Lamba er hlaupin stikuð gönguleið 11 km til baka að Súlubílastæði. Þar er drykkjarstöð og 93 km búnir af hlaupinu. Leiðin liggur þaðan yfir Glerárgil og fylgir svo nýlegum stíg sem kenndur er við Fallorku meðfram Glerá. Farið er yfir Hlíðarbraut og haldið áfram meðfram Glerá að Háskólanum á Akureyri. Að lokum eru síðustu 2–3 kílómetrarnir hlaupnir meðfram götum bæjarins niður í miðbæ Akureyrar þar sem hlaupið endar.
Keppendur í Gyðjunni verða að vera með track af leiðinni í úri eða síma. TRACK af hlaupleið er hér.
Nánari upplýsingar um tímamörk á leiðinni verða birtar síðar.
Þeir hlauparar sem ná ekki þessum tímatakmörkum þurfa að hætta í hlaupinu. Þessi regla á við um alla þátttakendur og er ekki hægt að semja við starfsmenn á staðnum um aðra kosti.
Eftirfarandi gæti bæst við sem skyldbúnaður ef veðurspá verður slæm, verður gefið út tveimur dögum fyrir hlaup
Stafir: Leyfilegt er að hlaupa með stafi en reglan er sú að þá þarf að hlaupa með þá allt hlaupið - þú byrjar með stafi - endar með stafi.
Þátttakendur þurfa, á meðan hlaupinu stendur, að hafa skyldubúnað á sér og vera viðbúnir því að starfsmenn hlaupsins óski eftir því að sjá búnaðinn áður en keppni hefst, meðan á henni stendur og í endamarki. Ef skyldubúnað vantar er tímavíti (15–60 mínútum bætt við lokatíma viðkomandi sem fer eftir hve mikinn skyldubúnað vantar). Hægt er að vísa þátttakanda úr keppni ef mikinn skyldubúnað vantar.
-->